Gullkorn frá Vinagerðisbörnum

                                                                    
Segðu mér það. Ég gleymi því.
Sýndu mér það. Ég man það.
Leyfðu mér að fást við það.
Þá skil ég það.
(máltæki frá Kína)

What you do in the present
creates the future,
so use the present to create a wonderful tomorrow.

Það er þetta með tímann.
Einn morgun lá einum dreng af Drekagerði mikið á að koma þessu á framfæri:
"Dagrún, ég meiddi mig í fótnum í fyrramálið"

Kaffistofan.
"Hver á heima hér" spurði barnið þegar það kom inn í kaffistofu starfsmanna

Kaffistofan aftur..
Ein stúlka af Drekagerði fór inni á kaffistofu starfsmanna og kunni auðsjánlega vel við sig þar og var treg  að fara þaðan þegar hún var sótt af leikskólakennaranum sínum. Leikskólakennarinn sagði henni að kaffistofan væri fyrir kennara og fullorðna ekki fyrir börnin. Þá stundi sú stutta og sagði:"Ég hlakka til að verða mamma og fullorðin og geta verið í kaffistofunni"

Þar hafið þið það kennarar:
Tveir 5 ára drengir eru að ræða saman og annar segir:" Slöngur eru dálítið eins og kennarar. Þær segja svo mikið USSsss!"

Við erum alltaf að læra:
Meistararnir í Drekagerði eru farin að velta fyrir sér næsta vetri og nýju skólastigi. Margt er rætt en ein stúlkan kom með þessa spurningu: "Vitið þið hvað maður lærir í Hlíðaskóla?"
Nei, enginn vissi rétta svarið því það hafði aðeins stúlkan sem upplýsti,  "að í Hlíðaskóla lærir maður að hlýða"!!

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir að mæta seint:
Einn drengur í Drekagerði mætti svoltið seint einn morguninn í leikskólann. Það var vegna þess, eins og hann sagði "að hann hefði vaknað yfir sig"!

Aldur er afstæður:
Einn drengur sagði kennara frá því að hann hefði séð svo gamlan mann í Kringlunni að maðurinn hefði verið orðin lítill! "Hvað ætli maðurinn hafi verið gamall", spurði kennarinn. "Hann var að minnsta kosti orðinn 12 ára", sagði drengurinn.

Nýtt og erfitt:
Nokkur púsl höfðu verið keypt í Drekagerði. Kennari kemur inn á deild og skoðar púslin og segir við 5 ára stúlku: "Þetta púsl hér lítur út fyrir að vera nokkuð erfitt". Stúlkan svarar að bragði: "Þetta er ekki erfitt,- þetta er eilífðarverkefni"!

Rabb í kaffitímanum í Drekagerði:
Kennari: Krakkar ætlið þið að horfa á kvennalandsliðið (í fótbolta) keppa í dag í sjónvarpinu?
Strákur 4 ára: "Eru Kr ingar og Garðablikar að keppa"?
Kennari: Nei, það eru íslendingar og frakkar.
Stúlka 5 ára: "Nú, eru íslendingar bara farnir að keppa við útlendinga!!"

Ný sjúkdómagreining:
Arnar 4 ára: Ég er með svo mikin höfuðverk í hálsinum!!

Í fataherberginu:
Drengur er í miklum vandræðum með að klæða sig í útifötin af því hann klæddi sig fyrst í vettlingana sína. Kennari segir við drenginn að þetta gangi ekki upp svona. Fyrst verði hann að klæða sig í sokka, síðan peysu, þar næst fari hann í snjóbuxur, svo úlpu, kuldaskó, húfu og allra síðast í vettlingana. Ein stúlka hefur fylgst með þessum orðaskiptum af miklum áhuga og segir eftir ræðu kennarans:" Heyrðu, hvernig stendur á því að þú veist þetta allt saman?"

Í upphafi dags:
Kennari spyr börnin: "Hvað viljið þið leika með í dag"?
Ein 5 ára svarar: "Dagsverkið mitt í dag er að lita"!

Eitt gamalt gullkorn:
Siggi fimm ára við vini sína: Vitið þið hvenær útlendingar eru ekki útlendingar?
Hin börnin vita það ekki. Siggi: Þeir eru ekki útlendingar þegar þeir eru heima hjá sér.

Hilda 3 ára:
"Af hverju eru ekki í fötum í dag" spurði Hilda matreiðslumeistarann þegar hann var ekki í kokkafötunum einn dag í vinnunni!

Markaðshugmynd ?
5 ára drengur: Mamma mín vinnur í Hagkaupum.
Kennari: Er hún að vinna á kassa?
Drengurinn: Nei, hún er í björgunarliðinu,...hún hjálpar fólki að finna það sem það vill kaupa!

 Góð vörn:

Kennari kemur að stúlku út í garði sem er berhandleggjuð. Kennarinn: Er þér ekki kalt á handleggjunum? Stúlkan: Nei, ég er með sólarvörn!