Umhverfisnefndarfundur með meisturum

Umhverfisnefndarfundur með meisturum 14. september, 2016.
Rætt var um Grænfánann og hvaða þýðingu það hefði að hafa Grænfána.

Eftirfarandi ákvarðanir voru teknar af börnunum:

1. Allir slökkva ljós í herbergjum þar sem enginn er. Nota dagsbirtuna meðan við getum.
Ljósameistari Drekagerðis hefur þá ábyrgð að fara um húsið og slökkva þar sem hægt er.

2. Sérstaklega fannst þeim að þyrfti að athuga með Álfagerði og Tröllagerði.

3. Börnin komu með þá hugmynd að allir mættu í grænum fötum og litaðar yrðu grænar myndir á föstudaginn 16. september í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Þetta var samþykkt samhljóða.

4. Dagrún hvatti þau til að fylgjast með breytingum sem eru að verða á náttúrinni núna í haust og þá sérstalega á litabreytingum trjánna.

Dagrún boðar til næsta fundar. Fundargerð ritaði Dagrún.

Fundargerðir umhverfisráðs foreldra og barna

Fundur með Umhverfisnefnd meistara föstudaginn 16. janúar 2015

Rætt var um:

Hvað er náttúra? Hvar er hún? Hvað er í henni? Hverjir eiga heima í náttúrunni? Hvað má gera í henni og hvað ekki? Hvernig eigum við að umgangast náttúruna svo henni líði vel?
Nokkur umræða varð einnig um dýr.

Miklar og frjóar umræður áttu sér stað og öll börnin tóku þátt.

DÁ spurði þau hvort þau hefðu áhuga á að sitja í umhverfisnefnd þar sem umhverfismál og uppeldistefnan okkar væri rædd á fundum. Niðurstaðan varð að þau vildu öll vera í nefndinni.

Að lokum var rætt um umhverfissáttmála Vinagerðis. Sýn barnanna er að:
HUGSA VEL UM NÁTTÚRUNA OG DÝRIN.

Dagrún Ársælsdóttir.

Umhverfisnefndarfundur með foreldrum;
21. nóvember, kl. 8:00 – 8:40  2014.
Mættir: Anna og  Ásta Kristín. Vantaði  Málfríði Söndru.
Dagrún sat fyrir leikskólann.

Þarf að gera umhverfissáttmála. Lagt til að börn, foreldrar og starfsmenn „eigi" allir í honum og taki þátt í að móta hann. Stefnt að Grænfánanum í sumar. Skýrslu skil eru í febrúar 2015. Þema grænfánaverkefefnisins  í leikskólanum er Lýðheilsa með veður sem undirþema.
Ákveðið að senda foreldrum stutta könnun á varðandi þeirra framlag í sáttmálanum.

Rætt um gátlista Grænfánaverkefnisins. Við stöndum okkur einstaklega vel. Örfá atriði vantar uppá að leikskólinn uppfylli alla þætti listans. M.a vantar mælingu á rafmagnseyðslu.

Rætt um plastpokanotkun sem er sama og enginn í leikskólanum en ræstingin notar plastpoka og er erfitt að ná samstarfi um endurnýtingu þ.e að  ræstingin  noti gamla plastpoka sem hafa komið inn í leikskólann.

Hugmynd kom um að börnin gerðu stórt skilti til að hvetja foreldra til að slökkva á bílnum fyrir framan leikskólann þegar komið er með börn eða þau sótt.

Umræður um hjólagrindur sem vantar á leikskólalóðina. Skoða hjólgrindur við Hörpu. Þær gætu nýst okkur sem leiktæki þegar þær eru ekki í notkun.

Mætti endurskoða viðburði á uppskeru- og sumarhátíð leikskólans. Bæði hvað varðar blöðrufígúrur og að hægt er að hafa pappamál sem fjölskyldurnar geta tekið með sér heim að notkun lokinni til endurnýtingar.

Dagrún boðar til næsta funds.

 

1. Fundur umhverfisnefndar Vinagerðis. 24. Janúar, 2012 kl. 09:30

Í nefndinni eru þrír fulltrúar foreldra, einn fulltrúi starfsmanna og barna frá hverri deild og Dagrún leikskólastjóri, Sigurhanna Sigurjónsdóttir deildarstjóri í Drekagerði er verkefnisstjóri Grænfánaverkefnisins.

Mættir: Guðrún (mamma Stefáns Atla), Dista fyrir Álfagerði, Sirrý fyrir Drekagerði og Dagrún.
Vantaði; Rannveigu (mömmu Lísu) og Unni (mömmu Júlíu Önju) og fulltrúa frá Tröllagerði.

Dagrún afhenti möppu með kynningu á Grænfánaverkefninu og sagði frá kynningu sem starfsmenn fengu á síðasta skipulagsdegi frá Landvernd. Á skipulagsdeginum vildi meirihluti starfsmanna taka fyrir þemað „Úrgangur (rusl)" því við værum komin vel af stað með það. Umræða var um að taka jafnvel annað þema eftir ár og verður það skoðað þegar að því kemur.

Þátttaka barna í nefndinni var kynnt, eins og hún var rædd á skipulagsdeginum. Börnin (meistararnir) sitja ekki umhverfisnefndarfundina en geta komið með erindi inn á fundinn, því það er mjög mikilvægt að rödd þeirra fái að heyrast og að þau finni að þau geti haft áhrif. Þannig læra yngri börnin af þeim eldri og taka við hlutverki þeirra þegar þau eru orðin elst ( verða meistarar.)

Rætt var um:

 1. Plastpokanotkun / taupokar.
 2. Lýsisinntaka barna. Ábyrgð foreldra og leikskóla.
 3. Rassaklútar, svampur, þvottastykki eða einnota stykki.
 4. Grænfánasáttmáli
 5. Hversu oft á að funda í nefndinni?

Ákveðið:

 1. Fara í „herferð" varðandi plastpoka. Leikskólinn mun hætta að útvega plastpoka fyrir óhrein föt barnanna þar sem það samrýmist ekki stefnu hans í umhverfismálum. Foreldrar ráða hvort þeir komi með plast- eða taupoka undir fötin. Þarf að gera foreldrum grein fyrir þessari breytingu.
 2. Börnin fá ekki lýsi í Vinagerði. Er það gert til að tryggt sé að foreldrar geti tekið ábyrgð á að gefa börnunum bætiefni. Það er reynsla starfsmanna að mjög fá börn tóku inn lýsi í leikskólanum þegar það var í boði. Það er því falskt öryggi fyrir foreldra að börnin taki daglega inn lýsi í leikskólanum. G finnst að lýsi eigi að fylgja morgunmatnum fyrir þau börn sem vilja taka það inn daglega.
 3. Í dag eru notuð sérstök svampstykki til að þrifa yngstu börnin. Svampurinn er mjög óumhverfisvænn. Rætt hefur verið um að nota sérstök þvottastykki sem færu í þvott í lok dags. Ákveðið var á fundinum að fara að undirbúa þessa breytingu.
 4. Starfsmenn munu gera drög að umhverfissáttmála Vinagerðis og leggja hann fram á næsta fundi.
 5. Ákveðið að umhverfisfundur verði mánaðarlega fyrst í stað og að taka lítil skref í einu.
  Næsti fundur verður 20. Febrúar kl 08:30.

Dagrún ritaði fundargerð.